top of page
  • Writer's pictureVíðir Þór Þrastarson

Að vera jafn á öllum vígstöðvum


 

Megináhersla ofurmargra í ræktinni er að lyfta. Í World Class Laugum sé ég fólk af öllum stærðum og gerðum að rembast við að rífa í járnin með ýmsum hætti. Lyftingar sem slíkar er hin fínasta líkamsrækt en einar og sér verður þó að teljast fremur takmarkað.


Annað, fjölmargir snerta ekki upphitunarvélarnar heldur vinda sér beint í lóðin og taka á því. Margir byrja þó að pumpa létt og hita þannig upp sem vissulega er betra en að hita ekkert. Upphitun hins vegar er afar mikilvæg og hvet ég fólk til að passa uppá það.


En ef við skoðum aðeins þau líkamlegu áhrif sem lyftingar hafa í för með sér. Lyftingar stuðla að því að vöðvamassi eykst, samhliða því brennir líkaminn fitu, bæði við vinnuna sem slíka en hún er orkufrek en einnig taka vöðvarnir sjálfir þátt í brennsluferlinu á fitu og sökum þess er einstaklingur með hátt vöðvamassahlutfall með hærri grunnbrennslu. Talsverð taugaaðlögun fer þessu samhliða og jafnvægi bætist oft á tíðum og svo eru líkur á bættum sprengikraft og styrk en slíkt fer þó eftir með hvaða aðferðum æft er.


Þegar ég var að læra einkaþjálfun sagði einn kennarinn okkur að skilgreining sín á því að vera fit, væri að ráða vel við eigin þyngd og einmitt að vera jafnvígur þegar koma að þoli, styrk og liðleika. Fólk sem leggur meginþunga á að lyfta er að öllum líkindum sterkt en aðra sögu má segja af þolinu og liðleikanum. Það getur varla verið eftirsóknarvert að vera bara sterkur en geta síðan ekki tekið almennilega á sprett án þess að liggja óvígur í korter á eftir til að ná andanum eða þá komast varla í sokkana á morgnana sökum of stífra vöðva.


Af þessu má leiða að afar mikilvægt er að þjálfa bæði upp þrek (þar mæli ég sterklega með hiit æfingum) sem og liðleika (t.d Yin yoga) og það má gera á svo fjölbreyttan hátt. Líkaminn svarar öllu áreiti og bregst við. Einfaldlega það að mæðast vel á æfingum leiðir til þess að eftir ákveðinn tíma verða loftefnaskiptin örlítið betri og fólk finnur að það er ekki eins þreytt og það var í upphafi þegar æfingarnar voru framkvæmdar. Gott þrek almennt hefur gríðalega mikið að segja til að mynda bara við daglegt líf. Meiri starfsorka og vellíðan. Það sama á við um liðleika. Slíkt næst að sjálfsögðu m.a með teygjum. Það að teygja reglulega eftir æfingar og gefa sér tíma leiðir til þess að liðleikinn verður meiri með öllum þeim ávinning sem því fylgir.


Lykilatriðið er að vera meðvitaður um þessa 3 meginþætti og að góðir hlutir gerast hægt.

14 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page