Allir sjúkdómar hefjast í meltingarvegi.
Svo spaklega mælti Grikkinn Hippocrates, guðfaðir nútíma læknisfræði fyrir meira en tvö þúsund árum síðan. Mér finnst þetta samt hljóma betur ef þessu er snúið við, þ.e. góð heilsa hefst í meltingarvegi. Það er því miður ansi algengt að fólk líti framhjá mikilvægi heilbrigðs meltingarvegar, jafnvel þó hann innihaldi tíu sinnum fleiri bakteríur en við höfum af eigin frumum í líkama okkar. Það má því segja af kímni að við séum í raun meiri bakteríur en manneskjur.
Þessar umræddu bakteríur eru okkur afar mikilvægar en þær vernda okkur m.a. fyrir sýkingum og hjálpa til við efnaskipti, meltingu og losun úrgangs. Á síðustu árum hafa komið fram vísbendingar um að þarmaflóran gegni mun stærra hlutverki en vísindamenn hafa gert sér grein fyrir. Að ónæmiskerfið sé að mestu staðsett í þörmunum og að góð þarmaflóra sé undirstaða heilbrigðs líkama.
Ennfremur er talað um að við höfum annan heila (second brain) í þörmum og að tengslin milli hans og heilans í höfði séu mikil. Röskun á þarmaflórunni getur haft í för með sér athyglisbrest og þunglyndi svo fátt eitt sé nefnt. Serótónín kannast margir við en þetta er taugaboðefni (oft kallað gleðihormón) sem hefur breiða verkun á fjölmargt í líkamsstarfseminni, má þar nefna allt frá tilfinningum til líkamshreyfinga. Merkileg nokk þá er þetta boðefni að mestu að finna í þörmunum!
Mikilvægt er að uppistaða bakteríuflórunnar séu góðgerlar. Í grunninn er það svo, en nútíma lífsstíll getur valdið röskun á flórunni. Má þar nefna reykingar og áfengisneyslu, ýmsan skyndibita, of mikið að unnum sykri og gervisætum, sýklalyf og langvarandi streita.
Mikilvægast af öllu er að tileinka sér hollt og gott mataræði, borða ferskan mat eins og náttúran gefur.
Líkamsrækt er einnig afar mikilvæg og getur eflt líkama okkar og styrkt ónæmiskerfið. Útivist í náttúrunni og hugleiðsla getur síðan hjálpað til gegn streitu.
Þessu til viðbótar getur verið gott að taka inn góðgerla í fæðubótaformi til að koma jafnvægi á þarmaflóruna og fyrir vikið að styrkja ónæmiskerfið sem í senn getur aukið athygli og hjálpað til gegn depurð.
Vanda ber valið þegar kemur að góðgerlum þar sem í mörgum tilfellum lifa þeir ferðalagið í gegnum meltingarveginn ekki af. Í fæðubótaformi þurfa hylkin að vera sýruþolin og almennt er æskilegra að þau séu geymd í kæli þar sem þau endast skemur í stofuhita. Gerjaður matur er síðan úrvals leið til að bæta þarmaflóruna og þar má m.a. nefna Súrkálið góða, Kombucha og Kefir.
Comments