Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum, ég held að það sé óumdeilanlegt. Ef heilsan brestur fer allt með henni. Við eigum bara einn líkama, allavega á þessu æviskeiði og því ætti það að vera í forgangi að næra hann eins og best verður á kosið á allan hátt.
Meistari Dalai Lama sagði eitt sinn, að það sem kæmi honum mest á óvart í mannlegri tilveru, væri að maðurinn fórnar heilsu sinni til að eignast peninga en fórnar síðan peningunum til að ná aftur heilsu sinni.
En hversu vel erum við að hugsa um heilsuna, viljum við að líkami okkar endist vel og lengi? Ímyndum okkur að við séum að byggja hús og notum lélegt byggingarefni (drasl), mun húsið endast vel og lengi? Alveg öruggleg ekki og það sama gildir um líkamann, ef við borðum til að mynda drasl, endum við sem drasl, þetta er ekkert flókið.
Gott líkamlegt form er lykillinn að langlífi og góðri heilsu. Geta líkamans til að flytja og nota súrefni við æfingar er sennilega besti mælikvarðinn á styrk og getu hjarta- og æðakerfis.
Byggt á viðamiklum rannsóknum hefur svonefnd K. G Jebsen miðstöð í íþróttalæknisfæði við Norska vísinda- og tækni háskólann útbúið spurningalista (World fitness level) svo hægt sé að áætla raunaldur út frá líkamlegu formi.
Hér þarf að svara nokkrum spurningum. Fyrst í 5 skrefum sem tekur enga stund, þar sem svarað er basic þáttum á borð við hæð og þyngd, mittismál og hvíldarpúls. Forritið getur úr frá því reiknað út áætlaðan raunaldur en ég hvet alla til að klára spurningalistann en þá bætast 10 skref til viðbótar þar sem farið er nánar út í lífsstíl. S. Hreyfingu, mataræði, áfengisneyslu, meiðsli, lyf og fleira í þeim dúr.
Aldur getur verið rosalega afstæður. Þegar ég var að kynna mér þetta efni nánar sá ég umfjöllun þar sem þrítugur karlmaður tók þetta próf samviskusamlega. Hann s.s vinnur við skrifborð allan daginn og er í streituvaldandi starfi, hreyfir sig lítið sem ekkert. Borðar skyndibita í flest mál, veit varla hvað ávextir og grænmeti er, drekkur áfengi í meira mæli en æskilegt getur talist (það þarf að vísu ekki mikið til þess) og reykir pakka á dag. Forritið reiknaði út að hann væri sextugur.
Ég las síðan um sextugann mann sem með lífsstíl í algerri andstöðu við þann þrítuga. Sá starfaði við kennslu og reyndi að standa og ganga eins mikið og hann gat. Hann borðar hollan mat, hreyfir sig reglulega og stundar hugleiðslur. Hann kom út úr þessu prófi sem þrítugur einstaklingur.
Þetta sýnir bara hvað lífstíllinn skiptir gríðarlegu máli. Öll viljum við eldast vel og njóta efri áranna. Byrjum strax að leggja fyrir, þ.e að hægja á öldum með því að tileinka okkur reglubundna hreyfingu og borða ferskan og hollan mat eins og náttúran gefur. Bætum þannig árum við lífið og lífi við árin.
Endilega svo að taka prófið og sjáið hvar þið standið.
Með von um góða heilsu og lífsgleði
Comments