Alla tíð hef ég verið fremur trúaður. Trúræknin byrjaði þegar ég var 5 ára en ég fékk sýkingu undir nögl á vísifingri og hafði miklar áhyggjur af. Mamma sagði mér þá að biðja til Guðs, að það myndi hjálpa. Um kvöldið fór ég með bæn og fór að sofa með fögur fyrirheit um bata að morgni. Þegar ég vaknaði og sá að sýkingin var enn til staðar varð ég fúll og þess fullviss að það væri nú lítill hagur í að biðja til einhvers kalls á himnum.
Þennan sama dag fór mamma með mig til læknis sem deyfði fingurinn og reif nöglina af takk fyrir. Fingurinn var svo pakkaður inn í umbúðir og ég pældi ekkert meira í þessu. Nokkru síðar þegar allt var gróið og fínt sagði mamma við mig: „Víðir minn, er puttinn ekki í góðu lagi?“ Ég hélt það nú. „Þá hjálpaði Guð þér ekki satt?“ Og þarna rann upp fyrir mér ljós 5 ára gömlum að vegir Guðs væru órannsakanlegir og að hann hjálpi öllum, hverjum með sínum hætti.
Þarna urðu kaflaskil í mínu lífi. Alla tíð síðan hef ég farið með bænir og beðið fyrir vernd, frið, gleði og kærleika til handa mér og minna. Frá því ég man eftir mér hef ég verið afar forvitinn um lífið og tilveruna og hef ég leitað víða fanga eftir svörum um hvaðan við komum, hvert við stefnum, af hverju er heimurinn eins og hann er og allt þar fram eftir götunum. Mér finnst það vera mikið atriði að vera með vangaveltur um lífsins veg og reyna að finna einhvern tilgang með öllu þessu harki sem öll tökumst við reglulega á við.
Ég hef reynt að leita til trúarinnar eftir svörum, m.a og í heilagri ritningu en aldrei verið almennilega sáttur við þau svör sem þar er að finna. Finnast þau ekki passa við eigið innsæi en hef reynt að fylgja því þegar ég feta mig áfram í lífinu. Það er svo margt í Biblíunni sem mér finnst ekki meika nokkurn sens. Fyrir utan augljósa hluti á borð við Örkina hans Nóa, Sódómu, blessaðan snákinn sem freistaði Evu og síðan þeirri staðhæfingu að konan eigi að vera þræll mannsins.
Þá eru aðrir þættir sem mér finnast veigameiri og til þess fallnir að ég trúi varla orði sem þarna stendur. Til dæmis er okkur gefinn frjáls vilji, en ef við syndgum verður okkur refsað og jafnvel grimmilega, dúsum í forgarði helvítis um aldur og ævi og ýmislegt fleira á þeim nótum. Enn fremur að Guð sé algóður en reiðist samt reglulega yfir syndum okkar mannanna. Áður en ég varð svona svakalega efins reyndi ég að breiða út fagnaðarerindið. Að fá alla til að taka kristna trú. Vegna þess að svo er mælt í heilagri ritningu að hver sem ekki á Jesú trúir muni glatast í stað þess að eignast eilíft líf.
Ég hafði áhyggjur af þessu og reyndi að fá barnsmóður mína til að taka trú vegna þess að ég vildi síst af öllu að hún myndi glatast þegar efnislíkami hennar deyr. Við áttum okkar rimmur út af þessu. Hún trúði bara á sjálfa sig og það góða í lífinu. Mér fannst það ekki nóg, það verður að trúa á góðan Guð svo við glötumst ekki.
Í bænum mínum bað ég algóðan Guð að frelsa barnsmóður mína því hún vissi eigi hvað hún gjörði. En þá fékk ég upp í hendurnar bókina Samræður við Guð. Ég hafði að vísu séð hana áður á bókasafninu en titillinn hræddi mig. Samræður við Guð, nei það er ekki hægt, þetta er bara bull. En svo gaf vinur mér eintak og sagði að þetta væri eitthvað fyrir mig. Ég opnaði fyrstu blaðsíðu og lagði hana ekki frá mér fyrr en kl. 04 um nóttina, ég kláraði hana í einum rykk.
Samræður við Guð fjallar ekki um nein trúarbrögð sem slík heldur um vangaveltur um daglegt líf. Varpað er fram spurningum hver við erum og hvert við stefnum og svörin koma svo sannarlega á óvart. Það kemur m.a fram að það sé ekkert helvíti til og að við munum ekkert glatast ef við förum ekki eftir boðorðunum 10. Enn fremur að trú barnsmóður minnar að trúa bara á sjálfa sig og það góða í tilverunni væri bara fullkomlega í lagi.
Bókina eða bækurnar öllu heldur, þær eru 3 talsins, skrifar Neale Donald Walsch en hann naut innsæis hinnar innri raddar sem ákallar okkur öll öllum stundum nema hann náði bara svona góðu sambandi og skrifaði innblásturinn á blað. Neale hefur haldið fyrirlestra um skrif sín um allan heim, bókin hefur verið þýdd á ótal tungumálum og komið út í milljónum eintaka og hafa bækurnar farið á metsölulista víða um heim. Neale heimsótti Ísland í fyrra og hélt erindi um bækur sínar. Hann vitnaði í stóra ráðstefnu sem hann tók þátt í fyrir nokkrum árum en þá var hann spurður út í eitthvað eitt sem Guð myndi vilja koma á framfæri, einhverja eina setningu. Og svarið var:" You´ve got me all wrong.“
Ástandið á heiminum í dag er jú ansi misjafnt en það er skref í rétta átt er að hver og einn leiti inn á við og nái sambandi við sína innri rödd og fylgi henni. Það er hægt að stilla þessu öðruvísi upp, hreinlega að sleppa takinu og go with the flow -að fela líf sitt í hendur Guðs- en þetta er uppistaðan í 12 spora kerfinu hjá AA samtökunum. Í bókunum er að finna stórkostlega lesningu um lífið sjálft og ég tel þær hreinlega vera skyldulesningu hjá þeim sem langar að glæða líf sitt tilgangi og stíga stórt skref í andlegum þroska.
תגובות