Þá er enn eitt árið hafið og eflaust fjölmargir búnir að strengja áramótaheit. Margir strengja sér það heit að komast í betra form, fara að hreyfa sig meira og betur og borða hollari mat. Allt saman er þetta gott og blessað en hvað ætli mörgum takist að standa við fyrirheitin fögru? Í fyrsta lagi þegar kemur að bættri heilsu eru flest átök dæmd til að mistakast. Átak er eitthvað sem varir í tiltekinn tíma og oft næst góður árangur á meðan það varir. En að því loknu er ansi algengt að fólk hellist úr lestinni og leiðist aftur að upphafspunkti.
Það sem til þarf og er vænlegri til árangurs er lífstílsbreyting, s.s að gera reglubundna hreyfingu- (og helst daglega) sem og hollt, ferskt og fjölbreytt mataræði að lífsstíl. Þannig eru mun meiri líkur á langvarandi og bættum árangri.
Það sem getur hjálpað til við að ná árangri og halda fólki við efnið eru markmið. Markmið eru „eldsneytið í ofni afrekanna” en manneskja án markmiða er eins og skip án stýris, sem siglir stefnulaust í sífelldri hættu á skipbroti. Manneskja með markmið er eins og skip sem stjórnað er af skipstjóra. Ég hvet því alla til að setja sér skýr markmið í átt til afreka, verða skipstjórar!😊.
Þar getur SMART módelið verið gagnlegt, skoðum hvað það stendur fyrir:
Skýr – Hvaða árangri viltu ná, hvers vegna og hvernig?
Mælanleg – Þetta segir sig sjálft, hvenær viltu vera búin/n a ná markmiðinu?
Aðgerðabundin – Það þarf að gera áætlun um hvernig skal ná settu markmiði, taka skref í rétta átt.
Raunhæft – Verður að vera raunhæft er varðar umfang og tíma.
Tímasett – Það þarf að vera ákveðinn tímarammi, upphaf og endir. Ef markmiðið er stórt getur þurft að brjóta það niður í minni skammtímamarkmið.
Ég nota þetta mikið sjálfur við æfingar og þegar ég er að þjálfa aðra. Tökum sem dæmi markmið um að ég ætli að ná 100 armbeygjum í einum rykk fyrir páska. Ég byrja á að meta ástandið og segjum áfram sem dæmi að ég geti tekið 40 slíkar í dag. Það eru 3 mánuðir til Páska og ég þarf að bæta mig um 60 til að ná settu markmiði. Ég búta því markmiðið niður og stefni á að ná 60 armbeygjum í byrjum febrúar, 80 í byrjum mars og loks verði þær 100 í byrjum apríl en þá hefjast páskarnir.
Innan hvers mánaðar æfi ég armbeygjurnar markvisst og reglulega, tek þær 2-3x í viku í bland við aðrar æfingar. Ég tek síðan stöðumat eftir fyrsta mánuðinn til að kanna hvort ég nái 60x, ef það næst held ég áfram á sömu braut, ef það vantar eitthvað uppá, endurskoða ég æfingaplanið, breyti og bæti eftir þörfum, geri kannski fleiri armbeygjur á æfingu eða oftar yfir vikuna. Breyti mögulega einhverju í mataræði eða hvíld á móti. Allt er þetta gert til að vega og meta árangurinn hverju sinni og mikilvægt er að prófa sig áfram.
Setjum þetta upp svona:
4. Janúar 2021: 40 Armbeygjur
1. febrúar: 60x
1. mars: 80x
1. apríl: 100x
Það er í raun sáraeinfalt að setja sér markmið og svo miklu meiri líkur á árangri ef fólk og upprennandi skipstjórar gera það.
Setjum okkur SMART markmið, uppfærum lífsstílinn og stefnum á að vera besta útgáfan af okkur sjálfum á alla vegu.
Comments