top of page
  • Writer's pictureVíðir Þór Þrastarson

Verum þakklát


Einhverra hluta vegna freistumst við flest í að kvarta stundum og kveina. Ástandið í þjóðfélaginu hefur reyndar alveg boðið upp á það. Heilbrigðismál í ólestri, verkföll hér og þar og fleira sem hægt er að vera neikvæður yfir. Þarna er ég engin undantekning. Ég er alltof duglegur að láta ástandið trufla mig og pirra. Þó hef ég loksins ákveðið að staldra aðeins við og skoða hvað mér verður framgengt með athæfinu. Nákvæmlega ekki neitt. Reyndar geri ég bara illt verra. Allavega ef eitthvað er að marka „the secret“ sem byggir á lögmáli aðdráttaraflsins. Þú ert það sem þú hugsar, þú kallar tiltekna hluti yfir þig. Sendir þú alheiminum neikvæðni, færðu það svo sannarlega til baka, margfalt. En sendir þú honum jákvæðni, þá færðu það endurgoldið með myndarlegum vöxtum.


Ég byrja alltaf á prófunum þegar fólk kemur til mín í þjálfun. Til að sjá stöðu mála og útbý í framhaldinu æfingaáætlanir í samræmi við sett markmið. Eftir hvern mánuð tek ég sömu prófanir aftur. Í langflestum tilfellum verða bætingar í öllu. Þó kemur fyrir að ekki náðist sett markmið í einu prófi eða svo. Og hvað gerist þá? Jú í stað þess að fagna því að hafa bætt sig í flestu og láta það næra hjartað þá er í staðinn bölvast yfir því að hafa ekki bætt sig í einu prófi. Það virðist okkur eðlislægt að láta smáræði brjóta okkur niður í stað þess að sjá heildar myndina og láta hana byggja okkur upp.


Það kemur annað slagið í nudd til mín stelpa sem er fjölfötluð. Hún er bundin við hjólastól og þarf aðstoð við flestar dagsins athafnir. Mikið ofboðslega vorkenndi ég henni þegar hún kom fyrst á bekkinn til mín. En sú kom mér á óvart. Þvílíka lífsgleði hafði ég sjaldan áður séð. Henni fannst lífið dásamlegt. Henni fannst gott að koma í nudd og hlakkaði alltaf til. Hún var að safna sér fyrir nýjum geisladisk. Nýr Grey´s þáttur var að detta inn og margt fleira dásamlegt í hennar lífi. Og ég sem var að kvarta yfir að vera slæmur í hné eftir erfiða æfingu eða að bölva hvað það var dýrt að fylla á bílinn. Halelúja, ég sem var að vorkenna henni, ég ætti frekar að vorkenna sjálfum mér. Ég hef það svooo gott og við flest en áttum okkur bara ekki á því, tökum lífinu sem sjálfsögðum hlut og sýnum jafnvel ekki vott af þakklæti.


Ég fann mér teygju og strengdi um úlnliðinn. Í hvert sinn sem ég fann mér ástæðu til að kvarta yfir einhverju, strekkti ég vel á henni á lét vaða. Fyrstu dagana var ég marinn á úlnliðnum en núna minnkar höggunum með hverjum deginum. Ég ætla að vera þakklátur núna, fyrir allt, fyrir það frábæra fólk sem ég á í kringum mig, fyrir að búa á Íslandi, fyrir lífið sjálft. Tökum öll þátt í því og geislum frá okkur jákvæðni og bjartsýni og njótum þess að vera til.


Eins og meistari Megas sagði, ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig.


47 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page