Af hverju að fara í einkaþjálfun ?
- Víðir Þór Þrastarson
- Aug 19
- 3 min read
Umtalsverð vitundarvakning hefur átt sér stað síðastliðin ár þegar kemur að heilsueflingu. Fólk er meðvitaðara um mikilvægi hreyfingar, um fæðuna sem við neytum, svefn, jákvætt hugarfar, félagsleg tengsl og svo mætti lengi telja.
Þegar kemur að líkamsrækt er mikilvægt að fólk prófi sig áfram og finni sér eitthvað við hæfi. Hreyfingu sem er skemmtileg og hvetjandi. Oft finnst mér sem svo að margir séu í ræktinni af illri þörf. Fólk veit að það gerir þeim gott að lyfta lóðum og sprikla í tækjasal en finnst það mögulega ekki gaman eða hreinlega veit ekki hvernig best sé að gera hlutina. Ganga því á milli tækja og gera bara eitthvað. Slíkt skilar alveg einhverju en hægt er að gera hlutina miklu skilvirkari, skemmtilegri og árangursríkari. Þess vegna ráðlegg ég fólki að prófa einkaþjálfun.
Jákvætt er að heilsan er sífellt í meiri forgangi hjá fólki sem vill nýta tímann sinn sem best. Þannig hefur einkaþjálfun orðið sífellt vinsælli kostur fyrir þá sem vilja ná markmiðum sínum á sem árangursríkastan hátt. Hvort sem þú ert byrjandi í líkamsrækt eða lengra kominn, þá getur einkaþjálfari haft gríðarleg áhrif á árangurinn og upplifunina af hreyfingu.

Hér eru helstu ástæður fyrir því af hverju það er góð hugmynd að fara í einkaþjálfun:
Persónuleg nálgun og sérsniðin áætlun
Einkaþjálfari gerir stöðumat og greinir stöðu mála, þarfir og hjálpar við að setja markmið. Býr svo til æfingaáætlun sem hentar hverjum og einum. Þetta tryggir að þú fái sem mest út úr hverri æfingu, líkur á meiðslum verða lágmarkaðar og líkur á árangur hámarkaður.
Rétt tækni og forvarnir gegn meiðslum
Margir æfa með ranga tækni án þess að gera sér grein fyrir því, sem getur leitt til meiðsla og minni árangurs. Einkaþjálfari leiðréttir líkamsstöðu, hreyfingar og öndun þannig að þú lærir að æfa rétt og örugglega.
Ábyrgð og hvatning
Það getur verið erfitt að halda sér við ef þú ert að æfa einn. Með einkaþjálfara ertu með einhvern sem heldur þér við efnið, hvetur þig áfram og hjálpar þér að viðhalda reglusemi og jákvæðu hugarfari. Fólk á oft auðvelt með að semja við sjálft sig þegar kemur að æfingum. ,,Æ ég fer bara á morgun frekar“, en svo hentar það ekki heldur og þá á bara að byrja uppá nýtt á mánudegi. Þetta sé ég alltaf í Laugum, allt fullt á mánudögum en svo fækkar jafnt og þétt inn í vikuna. En þegar fólk er með einkaþjálfara sem er að bíða eftir þeim, þá er ekkert annað í stöðunni en að mæta og taka á því 😊

Tímasparnaður og meiri árangur
Þú færð meiri árangur á styttri tíma með markvissum æfingum sem eru hannaðar með þig í huga. Þú eyðir ekki tíma í æfingar sem virka ekki eða henta ekki markmiðunum þínum.
Breyting á lífsstíl, ekki bara hreyfing
Margir einkaþjálfarar veita einnig ráðgjöf í mataræði, svefni og streitustjórnun. Þjálfunin snýst því ekki bara um líkamsrækt heldur um heildræna nálgun að betri heilsu og vellíðan.
Ávinningar þess að stunda ræktina reglubundið eru fjölmargir, betri líðan á líkama og sál. Betri svefn, fólk borðar yfirleitt betur þegar verið er að æfa og svo langar mig að mæta við aukið sjálfstraust. Þegar þú lærir að æfa rétt, sérð framfarir og finnur fyrir bættri líkamsvitund eykst sjálfstraustið – bæði í líkamsræktinni og í daglegu lífi.

Segja má að við séum sköpuð fyrir hreyfingu. Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum því ef hún fer á hliðina, fer allt með. Að mínu mati er fátt mikilvægara en að fjárfesta í eigin heilsu. Einkaþjálfun er afar góður kostur og hvet fólk til að kynna sér málið og setja sér markmið um að komast í sitt besta form og verða besta útgáfan af sjálfu sér á allan hátt.
Comments