Það er hinn mesti misskilningur að einungis grannvaxið fólk sé í besta forminu. Því er yfirleitt haldið fram að sá sem er feitur, hreyfir sig ekki neitt og er sökum þess í lélegu formi. Það er hins vegar svo að öll erum við misjöfn af Guði blessuðum gerð. Sumir geta étið kíló af súkkulaði á dag án þess að þyngjast nokkuð á meðan aðrir breikka við að horfa á molann.
Sá sem er þannig að eðlisfari getur samt verið mjög duglegur að æfa þó svo honum gangi illa að tálga af sér aukakílóin. Hann getur verið með mjög gott þrek, verið líkamlega sterkur og bærilega lipur. Við hliðina á honum stendur grannur gaur og sá bara hlýtur að vera í góðu formi. Það kemur svo óvænt í ljós að hann hefur afar takmarkað þol, sprunginn á brettinu eftir 10 mín skokk á 8km hraða/klst, hefur ekki 50 kg í bekk og nær ekki að snerta gólf ef hann beygir sig beint niður. Fær í þokkabót vænt tak í bakið þegar hann rís aftur upp.
Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson fyrrum prófessor við Íþróttafræðisetur Háskóla Íslands vill meina að hugtakið feitur í formi sé eitthvað sem mun koma sterkt inn næstu misserin. Það hefur sýnt sig, sér í lagi í Bandaríkjunum að baráttan hjá afar mörgum við aukakílóin er töpuð. Fólk er búið að reyna hina ýmsu kúra, byrja aftur og aftur í átaki sem hefur vissulega náð tímabundnum árangri en yfirleitt fer allt aftur í sama farið þegar átakinu líkur. Það að hreyfa sig markvisst til að líða almennt betur, ná upp þoli, styrk og liðleika er frábært. Það er svo mikilvægt að hafa þetta hugfast. Það að missa kíló er oftast aðal markmiðið hjá fólki en það ætti í raun og veru alls ekki að vera þannig, slíkt á bara að vera bónus.
Öll erum við misjöfn og flestum fer það bara nokkuð vel að hafa smá utan á sér. Meira að elska eins og sagt er.
Comments