Nýverið fjallaði ég um ACE eða áhrif erfiðleika í æsku á heilsufar á fullorðinsárum. Þar nefndi ég m.a HAM sem sjálfshjálparmeðferð. Ég hef mikla trú á hugrænni atferlismeðferð en um ræðir sálfræðimeðferð sem hefur gefið góða raun við meðferð geðraskana. Einnig er þetta eitthvað sem allir geta notað til að hjálpa sér til að líða betur og auðga líf sitt með jákvæðari hugsunarhætti og viðhorfi til lífsins.
Meðferðarhandbók HAM er öllum aðgengileg á heimasíðu Reykjalundar. Bókin er í 12 köflum og spannar víðan völl. Fjallað er um aðferðir til að takast á við vandann og tilfinningar. Fimm þátta líkanið er kynnt en það sýnir hvernig hugsanir, tilfinningar og hegðun hefur áhrif hvort á annað og breytingar á einum þætti eða öðrum hefur áhrif á hina þættina. Skilningur á samverkandi áhrifum þessara þátta getur hjálpað við að skilja vandamál og aðstæður og hvernig hægt er að bregðast við. Þegar ég var að grúska í HAM á sínum tíma fannst mér þetta mjög áhugavert og gagnlegt. Einnig er unnið með hugsanaskekkjur og leiðir skoðaðar til að breyta neikvæðum hugsunarhætti og margt fleira.
Á heimasíðunni sálfræðingar.is má finna fróðleik og flott myndband sem útskýrir vel um hvað HAM Snýst. Þetta er eitthvað sem börn og unglingar mega gjarnan kynna sér líka og eitthvað sem fjölskyldan öll getur unnið með til að bæta líf sitt og líðan.
Comments