top of page
  • Writer's pictureVíðir Þór Þrastarson

Förum í nudd


Mikilvægi þess að slaka á er óumdeilanlegt. Það er jafnmikilvægt að hvíla eins og að æfa. Þetta má þó ekki misskilja. Þ.e að það sé bara nóg að slaka á og þá sé allt í orden. Þegar verið er að æfa markvisst og reglubundið er hvíldin jafn mikilvæg æfingunni sjálfri. Það vill svo til að ákveðið niðurbrot fer fram á líkamsræktaræfingu og til að vöðvarnir stækki þarf að rífa þá aðeins (harðsperrur) og í hvíldinni fer af stað viðgerðarferli og þá þarf að passa upp á að borða hollan mat svo líkaminn hafi gott viðgerðar- og uppbyggingarefni.


Fyrir utan mikilvægi þess að slaka á og hvíla eftir æfingar er öllum hollt að slaka á huglægt og tengjast sjálfum sér. Það er gríðarlegur hraði í þjóðfélaginu, lífsgæðakapphlaupið fer til að mynda illa með marga og í raun öfugmæli að kalla meira peninga lífsgæði þegar heilsan síðan brestur út af streitu og álagi. Það er að koma betur og betur í ljós að langvarandi streita er stórvarasamt fyrirbæri og er mjög slítandi á líkama og sál.Ýmsar leiðir eru í boði til að takast á við streituna og álagið sem fylgir nútíma Íslendingum. T.d er hægt að stunda hugleiðslur, hlusta á slökunartónlist, setjast niður og lesa góða bók. Fara í gufa eða heitt bað og leggja áherslu á núið. Einnig er hægt að stunda Yoga og þess háttar æfingar en fyrir mína parta finnst mér best að fara í nudd.


Það er ekki annað hægt en að ná djúpri slökun í góðu nuddi. Það að anda vel inn í allar strokur og tengjast líkama sínum með því að fylgja því sem nuddarinn er að gera. Gott nudd eykur blóðflæðið, það hreyfir vel við sogæðakerfinu og eflir þannig ofnæmiskerfið, vinnur á bólgum og dregur úr spennu. Það hafa allir gott af því að fara reglulega í nudd, t.d í hverri viku eða a.m.k mánaðarlega. Það getur verið sniðugt að setja sér mánaðarlega markmið hvað hreyfingu varðar og verðlauna sig í lok hvers mánaðar með því að fara í nudd.

Verum skynsöm, gerum hreyfingu og hreint mataræði að lífsstíl, ekki tímabundnu átaki og njótum þess að fara reglulega í nudd.

26 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page