Föstur hafa líklega verið stundaðar í árþúsundir bæði vegna trúar- og heilsufars ástæðna. Lengi vel var það einfaldlega hluti af lífi fólks að veiða sér til matar og borða svo ekkert í 2-3 daga eða fram að næstu bráð. Þetta fyrirbæri má kalla feast and famine eða á íslensku veisla og hallæri. Í dag er raunin önnur og má segja að veislan taki engan enda þar sem hallærið þekkist vart lengur, a.m.k. ekki í vestrænum samfélögum.
Föstur hafa verið að ryðja sér til rúms undarfarin ár þegar kemur að heilsueflingu og vellíðan. Ýmsar útfærslur eru notaðar og fjalla ég um það hér að neðan. Einnig mun ég skýra frá helstu ávinningum þess að fasta reglulega.
Hvað er fasta raunverulega? Fasta er í raun að neyta ekki matar í tiltekinn tíma. Yfirleitt er líkaminn kominn í föstuástand eftir 8 klst, frá því síðast var borðað.
Segja má í stuttu máli að með því að fasta fái líkaminn rými til viðgerða og viðhalds. Melting er afar orkufrek, sér í lagi þegar við borðum kjöt og unnin matvæli og fyrir vikið er líkaminn ekki mikið í viðgerðarhlutverki á meðan. Ef við erum allan daginn eitthvað að borða fer hluti líkamsorkunnar í það. Endurheimt fer að mestu fram á nóttunni og því er mikilvægt að borða ekki 3-4 klst. fyrir svefn. Þannig fær líkaminn meira rými til að laga það sem aflaga hefur farið yfir daginn og á sama tíma þá sofum við betur.
Ávinning þess að fasta má draga saman í nokkur megin atriði. Það styrkir ónæmiskerfið. Það örvar svokallað Autophagy (sjálfsát). Það dregur úr bólgum í líkamanum og stuðlar að bættu hormónajafnvægi. Það örvar insúlínnæmi og vinnur gegn krónískum sjúkdómum.
Með því að fasta örvast virkni sýkilæta (Neutrophils) í líkamanum. Um er að ræða hvít blóðkorn sem vernda líkamann gegn hvers kyns árásum og stýra bólgusvörum því samhliða. Mikilvægt er að gott jafnvægi sé af þessum blóðkornum í líkamanum því ójafnvægi getur kallað á allskyns vandamál, þar má nefna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, alzheimer, þunglyndi, sjálfsónæmissjúkdóma og kulnun þá fátt sé nefnt. Sýkilæturnar éta eins og nafnið gefur til kynna sýkla en vísbendingar eru um, að ef of mikið er af sykri í blóðinu leita sýkilæturnar í að kaffæra sykrinum og vinna því ekki eins vel gegn sýklunum.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif föstu á þarmaflóruna svo góðgerlarnir nái yfirhöndinni. Góð þarmaflóra er forsenda sterks ónæmiskerfis.
Sjálfsát (Autophagy) er ferli þar sem líkaminn brýtur niður gamlar, veiklaðar eða skemmdar frumur eða frumuhluta og endurvinnur til orkuvinnslu. Með þessu fær hann rými til að mynda nýjar og sterkar frumur. Það má segja að þetta sé svar líkamans við því að framundan gæti verið hungursneið og hann þurfi að styrkja sig til að takast á við það. Þetta fyrirbæri er alveg sérstaklega öflugt þegar kemur að hvatberum eða orkueiningum frumna okkar. Það að líkaminn endurnýji veiklaða hvatbera og myndi nýja getur haft mikið að segja við að auka almennt orkustig í líkamanum og vellíðan. Viðgerðarferlið er líka talið afar mikilvægt fyrir heilastarfssemi.
Í framhaldi af þessu má nefna fjölmargar rannsóknir benda til að föstur geti aukið lífslíkur um allt að 30%. Það er ýmislegt sem talið er geta lengt lífið en það eina sem er raunverulega sannað er calorie restrict eða einfaldlega það að borða færri hitaeiningar og reglulegar föstur eru einmitt ein leið til þess.
Insúlínónæmi og þar að leiðandi áunnin sykursýki er gríðarlegt vandamál nú í seinni tíð og virðist bara fara versnandi. Ég las bók á dögunum sem heitir Insulin Resistance eftir Benjamin Bikman PhD. en þar fjallar hann ítarlega um mögulegar afleiðingar þess ef insúlín búskapurinn er í ójafnvægi. Þetta var vægast sagt átakanleg lesning en þetta því miður markvisst og jafnt og þétt rústar líkamanum og því til mikils að vinna að taka á insúlínnæminu. Þar hjálpa föstur klárlega til. Með því að útiloka mat, sér í lagi kolvetni um tíma getur líkaminn náð að leiðrétta sig og komið á betra jafnvægi á blóðsykur þegar farið er að borða á ný. Einnig auka föstur getu líkamans til að nota fitu sem orkugjafa og nota því samhliða kolvetni en á hagkvæmari hátt. Með auknu blóðsykurjafnvægi virðist hormónabúskapur líkamans verða betri og vísbendingar eru um talsverða aukningu á testósterón magni hjá karlmönnum, eitthvað sem getur verið áhugavert að kynna sér.
Allt þetta leiðir síðan til þess að líkur á krónískum sjúkdómum minnkar.
Ýmsar útfærslur eru í boði þegar kemur að föstum en líklega sú vinsælasta í dag er Intermittent fasting en þá er borðað í ákveðnum tímaramma dag hvern en fastað á móti. Flestir nota 16/8 en þá er fastað í 16 tíma en hafa svo 8 tíma glugga til að borða. Yfirleitt er þá fastað fram að hádegi og síðasta máltíð dagsins fyrir kl. 20. Ég mæli með að fólk byrji á þessu.
5/2 er önnur aðferð sem er vinsæl en þá er borðað að hámarki 500 hitaeiningar á dag tvo daga vikunnar, s.s mjög lítið eða alveg fastað en hina dagana er borðað venjulega. 6/1 er sama system nema þá er aðeins fastað í einn dag, oft er borðaður kvöldmatur á fimmtudegi og næst kvöldmatur á föstudegi, þannig næst 24 klst. fasta.
Þetta er eitthvað sem allir geta tileinkað sér og ég hvet fólk til að kynna sér þetta nánar og prófa sig áfram. Lengri föstur er síðan eitthvað sem hægt er að gera 2 - 4x á ári, en þá er fastað í þrjá sólarhringa eða 72 klst., þannig verður virknin mun meiri þegar kemur að insúlínnæminu og sér í lagi Autophagy. Ef megin markmiðið er að bæta insúlín næmið þá er betra að vera bara í vatninu þar sem safarnir innihalda einhver kolvetni.
Mig langar að enda þetta á að vísa aftur til feast and famine sem ég nefndi í upphafi en ég fór eitt sinn til Portúgal í 7 daga föstuprógram. Eftir nokkra daga áttaði ég mig á því að flest erum við að borða alltof mikið og oft á tíðum alltof mikið af drasli. Ég drakk fjóra drykki yfir daginn og var með frábæra orku, einbeitingin uppá 10 en það er eitthvað sem ég finn alltaf mjög sterkt þegar ég fasta og geri ég það mjög reglulega og svo fylgir þessu einstakur vellíðan á líkama og sál. Mæli heilshugar með.
Sem fyrr, borðum hollt, hreyfum okkur vel og reglulega, verum jákvæð og þakklát og prófum okkur áfram þegar kemur að föstum og kynnumst mögnuðum áhrifum þess.
Comentarii