top of page
  • Writer's pictureVíðir Þór Þrastarson

Kuldi



Í síðasta pistli fjallaði ég um Ísmanninn Wim Hof en hann hefur afrekað hluti sem margir myndu telja óframkvæmanlega en hann hefur ítrekað afsannað það meðal annars með 26 heimsmetum. Hann byggir aðferðir sínar á öndun sem ég fór yfir síðast sem og kulda. Stór þáttur í þessu öllu er síðan máttur hugans en hann segist geta stýrt honum með áhrifaríkari hætti með þessum aðferðum og eitthvað hlýtur að vera til í því miðað öll hans afrek.


Hann kom kælimeðferðum almennilega á kortið á sínu tíma og ég man fyrst þegar ég prófaði þetta. Þá fór ég í Nauthólsvíkina, það var háflóð, ég fór á klett og lét vaða á bólakaf. Sjokkið var rosalegt og ég var fljótur aftur uppúr og skokkaði síðan í heitapottinn. Nema hvað, inn í daginn leið mér alveg svakalega vel og hef ég allar götur síðan stundað köld böð vel og reglulega.


Það sem á sér stað í líkamanum er fjölmargt en í grunninn er það stress lota. Það vill svo til að áreiti eða stress er afar gott fyrir okkur almennt séð. Það reynir á líkamann, hvort sem það er með hita, kulda eða við líkamsrækt. Líkaminn sem svarar áreitinu með því að aðlagast og styrkjast. Krónískt stress er hins vegar skaðlegt því þá er áreitið ítrekað og langvarandi og það veldur líkamanum alveg klárlega skaða.


Það sem m.a gerist í líkamanum við að fara í kalda pottinn eða kalda sturtu er að blóðflæðið dregst saman. Ef við förum í heita pottinn eykst það og með því að fara í svokölluð víxlböð styrkjum við hjarta og æðakerfið og hjálpum líkamanum að flytja blóð á þau svæði sem þörf er á hverju sinni. Þetta hefur líka mjög jákvæð áhrif á sogæðakerfið. Kuldasjokkið opnar síðan lungum og örvar öndun og þannig getu líkamans til að taka upp og vinna úr súrefni.


Rannsóknir hafa sýnt fram á að köld böð losa um endorfín og er talið vera eitthvað sem getur hjálpað fólki að líða betur náttúrulega, þ.e án lyfja og verndað gegn þunglyndi, kvíða, orku og svefnleysi.



Ég þekki fullt af fólki sem stundar sjósund og flestir eiga það sameiginlegt að verða síður veikir. Wim Hof talar einmitt um þetta, hann hefur ekki veikst í áratugi. Köld böð keyra upp ónæmiskerfið með því að virkja svokallaða frumuboða (cytokines) sem vinna gegn vírusum og bakteríum. Svo er það líka þannig að með því að fara í köld böð örvast geta líkamans til að aðlagast almennum hitasveiflum. Ég hef alltaf verið mjög grannur og var lengi vel bara alltaf kalt. Þegar ég fór að stunda sjósund snarbreyttist það og mér verður mun síður kalt almennt séð.

Að lokum áður en ég kem með ráðleggingar um hvernig best sé að stunda köld böð langar mig að minnast á að við höfum hvítar fitufrumur og brúnar. Við viljum vera með meira af brúnu fitunni því hún er mjög rík af hvatberum sem framleiða orka og býr til hita. Köld böð örva einmitt framleiðslu á brúnni fitu sem síðan eykur grunnbrennslu og hjálpar til við að brenna hvítu fitunni. Brúna fitan er auk þess talin hægja á öldrun og hættunni á hrörnunarsjúkdómum. Ekki furða kannski að margir kalli sjósundið yngingarmeðalið sitt.


Ég hvet alla til að prófa sig áfram þegar kemur að köldum böðum. Fyrst skref getur verið að mæta í laugina og fyrir mestu mýsnar bara að stinga tánum ofan í. Aðrir geta farið aðeins lengra ofan í og þeir hörðustu á bólakaf en þá bara stutt dip og aftur uppúr. Næst þegar farið er, er hægt að fara aðeins lengra og vera aðeins lengur.

Hver og einn þarf síðan að finna hvað hentar en er ávinningur er á öllum stigum. Ath samt hvað þetta varðar að meira er ekki endilega betra. Það er engin þörf á að vera í hálftíma í kulda til að sanna sig og það getur beinlínis verið hættulegt. En fyrir lengra komna eru 3 mínútur talið vera gott. Segjum að einhver sé í kalda pottinum í 3 mín, þá getur verið gott að setjast niður í aðrar 3 mín og t.d taka öndun eins og ég skrifaði um í síðustu grein og á meðan er líkaminn að vinna sjálfur á móti kuldanum. Eftir það er hægt að fara í heita pottinn. Ég mæli samt með að enda í kalda pottinum en ekki lengi, kannski bara dip eða í hámark í eina mínútu og leyfa líkamanum að hita sig sjálfur.


Ef einhver er með hjarta og æðasjúkdóma þarf að fara varlega í köldu böðin, æskilegt er að ráðfæra sig við lækni hvað það varðar. Það sama gildir um óléttar konur og einnig þá sem þjást af alvarlegri kulnun í slíkum tilfellum er ekki víst að líkaminn geti aðlagast áreitinu.


En aðrir hafa enga afsökun og ég hvet alla til að skella sér í kalda pottinn, það hressir, bætir og kætir.

48 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page